Gilið er stórbrotið með nokkrum geysifallegum fossum. Sumir fossarnir sjást þó aðeins öðru megin frá, þannig að skemmtilegast er að ganga upp öðru megin og niður hinumegin. Sérstakur stekkur er í gilinu sem vert er að skoða. – Æskilegt er að hafa með sér létta vaðskó til að vaða í.
Leiðarlýsing
Gangan hefst rétt hjá bænum Fögrubrekku við Þjóðveginn sunnan við Staðarskála. Faratækjum er lagt á eftirlitsplani austan við þjóðveginn, þó ekki þannig að truflun stafi af þeim. Þaðan er gengið spölkorn meðfram þjóðveginum í norðurátt þar til kemur að Selá og henni fylgt í vesturátt norðan megin. Fljótlega þarf að fara yfir girðingu. Gilbrúninni er fylgt og í ljós koma allmargir fossar, hver öðrum fallegri. Litlu neðar er eins og klettaborg hafi klofnað frá gilbarminum og þar er hægt að komast niður í kvos þar sem sjá má gamlan stekk á sérkennilegum stað milli hárra kletta með hafti á milli. Þannig afmarkast stekkurrin á þrjá vegu frá náttúrunnar hendi en inngangurinn er hlaðinn.Þá er aftur farið upp og yfir girðingu og áfram gengið uns gilið grynnist og víkkar. Þar er gengið niður á grasbala og farið yfir ánna þar sem hún rennur í kvíslum. Nú er haldið niður á móti.
Einn af mörgum fossum Selgiljar. Mynd: GMHK
Síðan er gengið mest með gilbarminum uns komið er að lítilli þverá eða læk sem fellur í fossum niður í gilið. Þegar þar er komið yfir þarf að fara yfir girðingu. Gilið er afar fallegt að sjá frá þessum stað. Áfram er síðan haldið meðfram gilbrúninni, en áður en komið er á leiðarenda verður að fara yfir enn eina girðingu.
Hækkun um 160 m. 2,5 klst..
Varast ber að fara of nærri gilbrúninni, þar er víða þverhnípt.