Selárgil

Selá, neðri foss. Mynd: GMHK
Selá, neðri foss. Mynd: GMHK

Gilið er stórbrotið með nokkrum geysifallegum fossum. Sumir fossarnir sjást þó aðeins öðru megin frá, þannig að skemmtilegast er að ganga upp öðru megin og niður hinumegin. Sérstakur stekkur er í gilinu sem vert er að skoða. – Æskilegt er að hafa með sér létta vaðskó til að vaða í.

Leiðarlýsing

Gangan hefst rétt hjá bænum Fögrubrekku við Þjóðveginn sunnan við Staðarskála. Faratækjum er lagt á eftirlitsplani austan við þjóðveginn, þó ekki þannig að truflun stafi af þeim. Þaðan er gengið spölkorn meðfram þjóðveginum í norðurátt þar til kemur að Selá og henni fylgt í vesturátt norðan megin. Fljótlega þarf að fara yfir girðingu. Gilbrúninni er fylgt og í ljós koma allmargir fossar, hver öðrum fallegri. Litlu neðar er eins og klettaborg hafi klofnað frá gilbarminum og þar er hægt að komast niður í kvos þar sem sjá má gamlan stekk á sérkennilegum stað milli hárra kletta með hafti á milli. Þannig afmarkast stekkurrin á þrjá vegu frá náttúrunnar hendi en inngangurinn er hlaðinn.Þá er aftur farið upp og yfir girðingu og áfram gengið uns gilið grynnist og víkkar. Þar er gengið niður á grasbala og farið yfir ánna þar sem hún rennur í kvíslum. Nú er haldið niður á móti.

Selárgil, Foss

Einn af mörgum fossum Selgiljar. Mynd: GMHK

Síðan er gengið mest með gilbarminum uns komið er að lítilli þverá eða læk sem fellur í fossum niður í gilið. Þegar þar er komið yfir þarf að fara yfir girðingu. Gilið er afar fallegt að sjá frá þessum stað. Áfram er síðan haldið meðfram gilbrúninni, en áður en komið er á leiðarenda verður að fara yfir enn eina girðingu.

Hækkun um 160 m. 2,5 klst..

Varast ber að fara of nærri gilbrúninni, þar er víða þverhnípt.


Svæði

Map
Menu