Ánastaðastapi - Grímsá

Ánastaðastapi séð úr suðri. Mynd: GMHK
Ánastaðastapi séð úr suðri. Mynd: GMHK

Vegur 711.

Hnit: ISN93 408176.17 E, 553603.34 N

Ánastaðastapi er hvassbrýndur klettur við sjóinn norðan við bæinn Ánastaði. Við Hvalshöfða sem er lítil vík á milli stapans og bæjarins rak 32 stórhveli undan hafísnum ísavorið 1882 og voru þeir drepnir og skornir við ströndina. Sagt er að sá hvalreki hafi bjargað fjölda fólks frá hungurdauða, en menn komu langar leiðir að til að sækja góssið. Ísgryfjur voru gerðar við ströndina og hvalkjötið geymt þar langt fram að hausti þess árs.

Nánar um hvalrekann: http://is.wikipedia.org/wiki/Syðri_Ánastaðir og í Húna, ársrit USVH, árgangur 1980; grein eftir Ólaf Þórhallsson, bónda á Syðri Ánastöðum († 2013).

Klofinn Ánastaðastapi

Ánastaðastapinn er klofinn í norður-suður-átt. Mynd: GMHK

Leiðarlýsing

Faratæki er lagt við skilti á vegi 711 sem vísar að Ánastaðastapa. Öðru faratæki er lagt við Grímsá við veg 711.

Gengið er með troðningi frá vegi 711 niður að sjó og blasir stapinn þá við. Nú er haldið í suðurátt. Sjávarkamburinn er ýmist grýttur eða sendinn en gangan er ekki erfið fyrir vana göngumenn. Einn og einn selur gæti fylgst með göngufólkinu. Nokkrir drangar (berggangar) eru á leiðinni. Gangan tekur 1 – 2 tíma eftir því hversu hratt er farið og endar við Grímsá. Það er alltaf hressandi að fylla lungun sjávarlofti, hlusta á öldurnar og finna „gull“ í fjörunni.

Berggangur á leiðinni til Grímsár

Berggangur á leiðinni til Grímsár. Mynd: GMHK


Svæði

Map
Menu